Lögfræði Mikka refs.

Undanfarið hef ég hugleitt hvort lögfræði Mikka refs í Hálsaskógi hafi verið höfð að leiðarljósi í útrásinni og einkavinavæðingu bankanna.     Hún hljóðar svona " Það stendur ekkert um það í lögunum"  og svo er þetta notað hvar sem því verður við komið.     Mikki refur var merkilegur fír,   en hann sá að sér og fékk uppreisn æru sem hann svo sannarlega vann fyrir með því að bjarga bangsa litla.     Svo endaði með því í Hálsaskógi að öll dýrin í skóginum urðu vinir.    Verstu óvinir dýrana (maðurinn og konan) náðu ekki að selja bangsa litla í fjölleikahús og sátu eftir með sárt ennið.    En hvar eru Mikki refur og bangsapabbi nú ?   Æ, komið nú og bjargið okkur frá manninum og konunni, svo við endum ekki öll í fjölleikahúsi.


Hverjum er hægt að treysta nú?

Ég er ein þeirra sem fékk sent í tölvupósti upplýsingar um sérafgreiðsluna hjá þeim sem tóku lán(lesist rán) til að fjármagna kaup á hlutabréfum í fallítt banka.    Reiði mín var mikil - svo mikil að ég man nú ekki annað eins.   Ekki minnkaði reiðin þegar ég hlustaði/horfði á kvöldfréttir þar sem fullyrt er að þetta sé heilagur sannleikur.   Og svo kemur þetta frá norðmanninum !    Enginn brást við þegar viðvaranirnar komu,  enginn gerði neitt þegar skýrslur bárust um að bankarnir væru á hálum ís.

Er nokkuð skrítið að maður spyrji hverjum sé nú treystandi,  þeir sem fengu sérmeðferðina og bera væntanlega ábyrgð að hluta til hvernig komið er,  eru ennþá að stjórna eftir því sem manni skilst.   Er ekki allt í lagi heima hjá þér ?  Er stundum spurt þegar einhver nær að ganga fram af einhverjum.   Eigum við ekki heimtingu á að mönnum sé skipt út þegar þeir hafa gerst sekir um svona skammarstrik (þori ekki að taka dýpra í árinni - en það ætti samt við)  

Bankinn minn tók af sparifénu mínu 15-20 %,  hvað á að gera við þann pening?   Er hann kannski notaður til að dekka "ránin" sem tekin voru til hlutabréfakaupa?   Ég á ekki erfitt með að fyrirgefa það sem ekki er fyrirséð eða gerist óvart,  en það sem gert er af ásetningi á ég afar erfitt með að fyrirgefa.    En sé það satt að í bankanum mínum starfi ennþá þeir sem fengu sérmeðferð þá er ekki langt í að ég flytji allt mitt.    Spurningin er bara,  hverjum er hægt að treysta ? 


mbl.is „Hefði átt að vera búið að stoppa ykkur fyrir löngu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Treystum hvert öðru ?.........

Ég las í morgun þessa ágætu áminningu, -  að mikilvægast nú væri að treysta hvert öðru.     Ég varð hugsi - fór að velta fyrir mér hvernig maður byggði nú upp traust.    Er það ekki byggt á heiðarleika ?  Og einlægni ?   Mér hefur fundist undanfarna daga að það vanti ef til vill eitthvað upp á þessi atriði hjá einhverjum.    Þeir sem vilja fá traust almennings þurfa að sýna að þeir séu traustsins verðir.    Þeir sem ég treysti best eru þeir sem hafa sýnt mér einlægni og verið heiðarlegir og opinskáir.    Sumt er ef til vill ekki hægt að segja opinskátt en það er samt afar mikilvægt að vera heiðarlegur, þannig ávinna menn sér traust en ekki með fagurgala um eigið ágæti.     "Svo kom ég og reddaði þessu"  virkar ekki trúverðugt í mín eyru.     Það myndi virka betur ef einhver segði - svo fremi það væri sannleikur,  " ég gerði mistök, getið þið fyrirgefið mér". 

Þetta er skrifað sem örlítil áminnig til þeirra sem biðja almenning að sýna sér traust.


Kreppan

Laugardagsmorgnar eru í mínum huga besti tími vikunnar.    Þá vakna ég nokkuð snemma og get fengið mér morgunmatinn í rólegheitum og lesið blöðin í góðu næði yfir kaffibolla (bollum) sem jafnan er grænn Bragi.    Í morgun var engin undantekning,  Bragi bragðaðist vel og hvorugt fríblaðana var í fríi.   En það sem vakti mig til umhugsunar í morgun var annars vegar allar heilsíðu- og heilopnuauglýsingarnar frá hinum og þessum verslunum og hins vegar allar greinarnar frá hinum og þessum spekingum um kreppuna sem nú er að hellast yfir þjóðina.      Ef ég les þetta í samhengi þá velti ég því fyrir mér hvað sé á bak við auglýsingarnar.    Er það örvænting stórra verslanakeðja sem sjá fram á það að ef ekki er hægt að blekkja neytendur til að koma og versla muni þeir rúlla.  Eða eru þetta verslanir sem eiga eftir að gera það gott af því neytendur hafa næg fjárráð og geta verslað að vild.    Svo ekki sé minnst á brelluna sem heyrðist í kvöldfréttunum í gær - " farið hamstra".    Ég ætla ekki að fara í verslunarleiðangur í dag eða næstu daga, ég ætla ekki að hamstra,  ég ætla að halda fast um budduna ( þó ég hafi verið svo heppin að fá launahækkun rétt áður en kreppunni var lýst yfir).    Kvöldmaturinn er slátur að gömlum og góðum sið,  ég splæsti í rófur í lágvöruverðsversluninni sem ég fór í í gær af því það á svo vel við  með slátri.     Þegar ég las svo auglýsinguna aftan á Fréttablaðinu þar sem auglýstur var borðbúnaður af fínni gerð ásamt prjónum til að borða með þá var mér nú allri lokið,  ég sé okkur ekki í anda borða slátrið með prjónum.

Missti af partýi ársins

Ljósmóðirin fékk gigtarkast og komst ekki í frænkupartýið sem haldið var í Hlíðinni fríðu í Grafningi.   Hún hefur ekki verið nógu dugleg við neitt undanfarið svo  hreyfingarleysi setti þetta kast af stað ef hún skilur þetta rétt.    Einhversstaðar las hún að líkaminn væri eina vélin sem slitnaði við hreyfingarleysi.  Það er sennilega alveg hárrétt.    Þess vegna fékk ljósmóðirin vængi þegar hún las í Fréttablaðinu í morgun að það væri hjartadagur í Kópavogi í dag og dreif hún sig til að læra stafagöngu.    Og viti menn,  hún lærði að ganga upp á  nýtt -  með stöfum.   Einhvertíma hefði nú ekki þótt íþróttamannslegt að ganga með tvo stafi (sbr. Jón Konn.  sálugi)   en þetta er hin besta hreyfing og nær að hreyfa bæði hendur og fætur ef rétt er gert.   Að ég tali nú ekki um hjarta og lungu sem svo sannarlega fá að pumpa.    Svo nú er ljósmóðirin búin að heita sjálfri sér því að æfa nú fram að næsta partýi og vera í fantaformi þegar að því kemur.      Alveg var stórmerkilegt hvað margir tóku þátt í þessu hjartahlaupi þar sem þetta fór nú fram á sunnudagsmorgni kl. 10.30.   Það er alveg greinilegt að það eru ekki allir í óhollustu og sukki um helgar og geta þess vegna vaknað snemma á sunnudögum til að hreyfa sig.     Nú er bara að halda áfram að nota stafina!!


Sátt

Nú liggur fyrir niðurstaða úr atkvæðagreiðslu vegna miðlunartillögu ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu ljósmæðra við íslenska ríkið.    Sú sem þetta ritar er nokkuð sátt við þessa niðurstöðu þó eitthvað vanti uppá að ljósmæður fengju það sem þær telji að þeim beri.    Ekki er hægt að ætlast til að fá sínum ýtrustu kröfum fullnægt í deilum sem þessari,  en það má líta á þessa niðurstöðu sem einn áfanga í lengra ferli.    Ljósmæður eru ekki hættar baráttu sinni fyrir leiðréttingu á kjörum sem hafa um langan tíma verið langt fyrir neðan stéttir sem eðlilegt er að ljósmæður beri sig saman við.   Baráttan er rétt hafin og augljóst að ljósmæður hafa mikinn stuðning í þjóðfélaginu - enda má segja að allir íslendingar hafi í upphafi lífsins lent í höndum þeirra og eigi þeim því gott að gjalda.    Ljósmæður eru þolinmóðar og kunna svo sannarlega að bíða - þær hafa sýnt það og sannað.  

     


Ánauð

Samkv.  íslenskri orðabók sem gefin var út af Eddu útgáfu árið 2002 er orðið þræll,  skilgreint svo:   " ófrjáls maður (t.d. hertekinn eða keyptur, eign húsbónda síns),  notaður sem vinnudýr,  (eintala yfirleitt bara um karla, fleirtala um bæði karla og konur).    Þrælalög,   lög um að halda fólki í ánauð,  lög til að beita fólki harðræðum (til vinnu).   

Mér datt þetta svona í hug þegar ég var að hugleiða hvernig ég gæti losnað úr vinnu minni hjá ríkinu ef uppsögn mín verður dæmd ólögleg.


Enginn bilbugur

Það er engan bilbug að finna hjá utanríkisráðherra við undirbúning á umsókn Íslands í öryggisráð SÞ.  http://vefblod.visir.is/index.php?s=2373&p=61869   
Það er heldur engan bilbug að finna hjá ljósmæðrum  Íslands í kjarabaráttunni.     Við drögum ekkert af okkur en öfugt við utanríkisráðherra þá sættum við okkur ekki við að þetta "geti farið á hvorn veginn sem er"    Angry    Við ætlum að ná settu markmiði.
Gleðilegan sunnudag í roki og rigningu!

Þegar vonin bregst líka

Hvernig líðan er það þegar allt hefur brugðist og meira að segja þeir sem helst voru traustsins verðir ?

Nú hefur frænka talað, Ingibjörg Sólrún sem var  einna skeleggust í kvennabaráttu síðustu aldar talaði loksins í hádegisfréttunum í dag.  Eftir að hafa hlustað á það sem hún sagði er ég ekki vongóð um að hún geri neitt til að rétta ójöfnuðinn sem ljósmæður þessa lands hefur búið við í áratugi.   Ég treysti því að hún myndi beita sér til að þessu óréttlæti yrði aflétt en hún hefur ekki staðist væntingar mínar.     En af þvi ég er ekki viss um að langrækni mín endist fram að næstu kosningum þá ætla ég að setja miða á ísskápinn - ALDREI AÐ KJÓSA SAMFYLKINGUNA AFTUR !

 Ég þarf ekki að setja svona miða fyrir íhaldið - ég er löngu hætt að binda vonir við það í þessum efnum.


Höfundur

Ólafía Margrét Guðmundsdóttir
Ólafía Margrét Guðmundsdóttir
Hún er búin að starfa í tæplega 30 ár í faginu.   Hún hefur enga tölu á því hversu mörgum börnum hún hefur hjálpað í heiminn, en þau eru orðin nokkur hundruð.     Henni hefur alltaf fundist gaman í vinnunni og finnst það enn.   Hún má fara á eftirlaun samkvæmt 95 ára reglunni.   Það getur orðið  eftir um það bil 4-5 ár.    Það er ekki slæm tilhugsun.   Annars hefur hún orðið dálítið pólitísk á seinni árum en ekki þó flokkspólitísk enda telur hún að það bindi fólk um of á klafa.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

33 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband